„Viljum tryggja öryggi og heilsu þátttakenda“

„Unglingalandsmót UMFÍ er flókinn viðburður þar sem þátttakendur skrá sig í margar ólíkar greinar og fara á milli svæða. Við viljum tryggja öryggi og heilsu þátttakenda og gesta og ákváðum því að fresta mótinu,“ segir Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar Unglingalandsmóts UMFÍ.

Nefndin ákvað á fundi sínum í gærkvöld að fresta mótinu um eitt ár.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð og hefur hún um árabil verið ein af stærstu og fjölmennustu hátíðunum sem haldnar eru um verslunarmannahelgina. Mótið er aldrei haldið á sama stað tvö ár í röð og átti það að fara fram á Selfossi nú um verslunarmannahelgina í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðin og Sveitarfélagið Árborg. Um tíuþúsund gestir hafa sótt mótin að jafnaði síðustu ári.

Þórir segir mótshaldara harma ákvörðunina. Framkvæmdanefndin hefur verið í góðu sambandi við Almannavarnir og sóttvarnayfirvöld á Suðurlandi og voru vonir bundnar við að yfirvöld myndu útvíkka samkomubannið úr 500 einstaklingum í allt að tvöþúsund.

„En þegar því var frestað þá þurftum við að hugsa næstu skref. Við teljum okkur ekki geta uppfyllt skilyrði sóttvarnayfirvalda og teljum því ekki rétt að halda það. Því miður var mörgum farið að hlakka til og margir búnir að leggja mikið á sig við undirbúning Unglingalandsmóts UMFÍ. En við viljum sýna ábyrgð. Við vonum að fjölskyldur njóti verslunarmannahelginnar saman og á heilbrigðum,“ segir Þórir ennfremur.

Fyrri greinVerklokum fagnað í orkuskiptum á Kili
Næsta greinUnglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi frestað um ár