Sveitarstjórn Rangárþings eystra hyggst óska eftir því við Umhverfisstofnun að fá að halda vegi að grjótnámi í Seljalandsheiði.
Þar var byggður 14 metra breiður vegur þegar grjót var sótt þangað í Landeyjahöfn en kvaðir voru um að hann yrði minnkaður niður í 7 metra þegar grjótnámi lyki. Að sögn Ísólfs Gylfa Pálmasonar, sveitarstjóra, finnst mönnum óþarfi, nú þegar fjármunir eru af skornum skammti, að fara að eyðileggja þennan veg. Því hefur verið óskað eftir að fá að halda honum óbreyttum og er ósk um það lögð fram fyrir hönd sveitarstjórnar, Almannavarna, Landgræðslunnar og landeigenda.
,,Það er fáránlegt að eyða peningum í að eyðileggja þennan veg enda ljóst að hægt verður að nýta hann áfram. Þarna hefur verið hægt að sækja mjög gott grjót og svo spillir ekki fyrir að þarna er fallegt útsýni,“ sagði Ísólfur Gylfi í samtali við Sunnlenska. Hann tók fram að þar sem landið væri í einkaeigu þyrfti að koma til samkomulag um nýtingu við landeigendur.