Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, mælti í gær fyrir frumvarpi sínu til breytinga á erfðafjárskattalögum vegna ættliðaskipta bújarða á Alþingi. Birgir segir markmið frumvarpsins vera að treysta búrekstur í landinu og að gera ábúendum jarða auðveldara að ráðstafa jörð innan ættar.
Í frumvarpinu felast skattalegir hvatar fyrir kaupendur bújarða til að halda áfram búskap á bújörð, þannig að bújarðir sem erfast verði undanþegnar erfðafjárskatti að því skilyrði uppfylltu að erfingi haldi áfram búskap.
Nýliðun í landbúnaði ekki nægjanleg
„Talsverð umræða hefur verið um vanda við kynslóðaskipti og nýliðun í búskap, meðal annars vegna mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu með tilliti til matvælaöryggis þjóðarinnar. Innan fárra ára, eða árið 2030, þarf að auka matvælaframleiðslu um 40% til þess að mæta aukinni fólksfjölgun. Nýliðun í landbúnaði er langt frá því að vera nægjanleg til þess að standa undir þeirri aukningu og þess vegna er að mínu mati nauðsynlegt að færa í lög hvata fyrir einstaklinga að stofna til eða viðhalda landbúnaðarrekstri, m.a. í gegnum húsnæðisstuðningskerfið og skattalöggjöfina,“ segir Birgir um málið.
Margir búa við þunga skuldabyrði
Hann segir nauðsynlegt að ungir bændur eigi þess kost að eignast jarðir eldri kynslóða án þess að stofna til þungrar skuldabyrði: „Oft er það vilji þeirra sem eignast jörðina að henni verði ráðstafað innan fjölskyldunnar og jafnvel til tiltekins ættingja sem hyggst halda áfram búskap á henni. Það getur hins vegar verið verulegum vandkvæðum bundið að ráðstafa slíkum jörðum til yngri kynslóða án þess að slíkt stofni til íþyngjandi skulda fyrir viðkomandi. Verðmæti bújarða hefur í mörgum tilvikum aukist verulega vegna uppbyggingar á þeim undanfarin ár og því getur reynst erfitt fyrir næstu kynslóðir að kaupa þær af foreldrum eða með erfingjum. Vegna þessa hafa margir þurft að búa við þunga skuldabyrði vegna kaupanna eða þurft að hverfa frá jörðunum og búskapur á þeim lagst niður,“ segir Birgir sem mælti fyrr á þessu þingi fyrir þingsályktunartillögu um sama efni.
Birgir segist binda vonir við að málið fái hljómgrunn á Alþingi, ekki síst í ljósi baráttufundar Samtaka ungra bænda undir yfirskriftinni „Laun fyrir lífi ungra bænda og íslenskra sveita,“ sem fram fer í dag, 26. október.