Vill byggja listamannaíbúðir á Stokkseyri

Carlos Zapata, þekktur arkitekt frá New York, hefur óskað eftir að fá úthlutað þremur lóðum við Eyrarbraut á Stokkseyri.

Þar hyggst Zapata reisa íbúðarhús þar sem jafnframt verða íbúðir og aðstaða fyrir listamenn.

Hefur verið ákveðið að deiliskipuleggja svæðið upp á nýtt en í gildi er gamalt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir vegi við sjóvarnargarðinn, sem ekki telst heppilegt. Fær arkitektinn væntanlega úthlutað lóð í kjölfar breytingarinnar.

Meðal þekktra bygginga sem Zapata þessi hefur hannað eru íþróttaleikvangurinn Soldier Field í Chicago og hluti flugstöðvarinnar í Miami í Bandaríkjunum.

Fyrri grein„Lítill munur á liðunum“
Næsta greinMennirnir voru afar ógnandi