„Þetta er starfshópur sem var upphaflega skipaður af Héraðsnefnd í fyrra og vann þá skýrslu um stöðu mála varðandi hjúkrunarrými í sýslunni, um þörfina fyrir slík rými og leiðir til úrbóta.
Hópnum var síðan falið að vinna áfram að tillögu um uppbyggingu hjúkrunarrýma í sýslunni,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar. Hún er jafnframt formaður starfshópsins um baráttu fyrir byggingu sextíu rýma hjúkrunarheimilis á Selfossi.
Auk Ástu sitja í honum Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, Unnur Þormóðsdóttir, formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar og Sveinn Steinarsson, forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss.
Nefndin hefur lagt til við héraðsnefnd að skoða hvort sveitarfélögin geti komið sér saman um að nýtt hjúkrunarheimili verði byggt á Selfossi. Jafnframt verði kannaður sá möguleiki að nokkur rýmanna verði í öðrum sveitarfélögum.