Um klukkan hálf fimm í dag voru björgunarsveitir í Árnessýslu og frá Hellu og Hvolsvelli kallaðar út vegna göngumanns sem var villtur í Þjórsárdal.
Maðurinn hafði fyrr um daginn lagt af stað til göngu einsamall frá skálanum Kletti í Þjórsárdal. Síðdegis náði maðurinn að tilkynna félögum sínum með skilaboðum að hann væri viltur.
Rúmlega fimmtíu björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðinni en leitarsvæðið var frekar stórt þar sem maðurinn hafði gengið í þó nokkurn tíma áður en hann tilkynnti um að hann væri villtur.
Björgunarsveitarfólk náði að vera í sambandi við manninn mest allan tímann og var ástandið á honum gott og var hann vel útbúinn. Maðurinn náði að lýsa aðstæðum þar sem hann var staddur við háspennulínur og voru það staðkunnugir björgunarsveitarmenn sem áttuðu sig á hvar hann var.
Hann fannst um kvöldmatarleytið og var honum skutlað aftur í skálann Klett.