Vilt þú starfa í björgunarfélagi?

Í kvöld hefst nýliðaþjálfun Björgunarfélags Árborgar með kynningarfundi kl. 20 í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi, Árvegi 1, gegnt lögreglustöðinni.

Nýliðastarf Björgunarfélags Árborgar er fyrir alla sem náð hafa 16 ára aldri bæði konur og karlar og vilja kynna sér starf björgunarsveita og hafa hug á að starfa á vegum félagsins.

Ef þú hefur gaman af útivist, ferðamennsku, jeppum, siglingum, skyndihjálp, klifri, jöklabrölti, fjarskiptum og að hjálpa öðrum, þá er nýliða starf Björgunarfélags Árborgar eitthvað fyrir þig.

Námskeið á vegum björgunarfélaganna gefa einingar á framhaldskólastigi. Áhugasamir eru hvattir til að mæta á fundinn í kvöld.

Innan björgunarfélagsins eru öflugir flokkar sem halda utan um starf sveitarinnar, bátaflokkur, fjallabjörgunarflokkur, fyrstu hjálparflokkur, leitarflokkur, tækjaflokkur og undanfarar á svæði 3. Einstaklingar innan flokkana eru sérmenntaðir hver á sínu sviði til að geta tekist á við hin ýmsu verkefni tengd björgunarstörfum.

Fyrri greinÍR og Fram unnu sína leiki
Næsta greinHeita vatnið í Árborg hækkar