Hjálparsveit skáta í Hveragerði verður með kynningarfund í kvöld kl. 20 í húsnæði sínu að Austurmörk 9 í Hveragerði.
Nú þegar haustar hefst vetrarstarf hjálparsveitarinnar og byrjar veturinn á nýliðakynningu.
„Við erum að leita af fólki á öllum aldri frá sextán ára og upp úr, bæði konum og körlum,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, formaður HSSH, í samtali við sunnlenska.is. Lárus segir félagsstarfið geta höfðað til allra þeirra sem hafa áhuga á jeppum, vélsleðum, útivist, ferðamennsku, rústabjörgun, flugeldum, skyndihjálp, klifri, tölvum eða fjarskiptum og því að hjálpa öðrum.
„Félagsskapurinn er góður og allir þeir sem áhuga hafa á að starfa með sveitinni eða vilja kynna sér starfsemi hennar eru hvattir til að líta við,“ sagði Lárus.