Í dag voru fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar gangsettar á Hafinu fyrir ofan Búrfell. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, gangsetti vindmyllurnar.
Uppsetning vindmyllanna er liður í rannsóknar- og þróunarverkefni Landsvirkjunar á hagkvæmni vindorku á Íslandi.
Vindmyllurnar eru framleiddar af þýska fyrirtækinu Enercon, sem sérhæfir sig í framleiðslu gírlausra vindmylla til notkunar á landi. Starfsmenn Enercon hófu uppsetningu á vindmyllunum í desember sl. og hafa undanfarið unnið að forrekstrarprófunum og er nú komið að formlegri gangsetningu þar sem þær vinna raforku inn á hið íslenska raforkukerfi.
Vindmyllurnar eru hvor um sig 900 kW en samanlögð áætluð raforkuframleiðsla þeirra er um 5,4 GWst á ári. Hæð mastursins er 55 metrar og hver spaði er um 22 metrar á lengd. Þegar spaðinn er í efstu stöðu er því heildarhæð hverrar vindmyllu 77 metrar.
Fulltrúi Enercon, framleiðanda myllanna, afhenti Landsvirkjun vindmyllurnar til rekstrar áður en ráðherra gangsetti þær.