Dýpkunarskipið Perlan lagði af stað til Landeyjahafnar kl. 15 í dag og hefur vinnu við dýpkun innsiglingarinnar um leið og það kemur á staðinn, væntanlega snemma í fyrramálið.
Perlan verður til taks svo lengi sem þörf krefur en ekki er komin tímasetning á hvenær Herjólfur siglir næst til Landeyjahafnar. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá Vegagerðinni, Siglingamálastofnun og Eimskip, sem rekur Herjólf.
Gert er ráð fyrir að þessi lota við að dýpka innsiglinguna taki nokkurn tíma en ölduhæð ræður mestu þar um. Veður við suðurströndina hefur verið rysjótt eins og jafnan á haust og vetrarmánuðum en Perlan verður til taks svo lengi sem þörf krefur.
„Frá upphafi var gert ráð fyrir því að fyrsta vetur Landeyjahafnar þyrfti töluverðar dýpkunarframkvæmdir í höfninni en almennt ríkjandi suðvestanáttir munu þó eiga stærstan þátt í að fjarlægja gosefnið frá höfninni á haf út.
Í vetur verður Landeyjahöfn áfram aðalhöfn Herjólfs og áætlun miðast við siglingar þangað. Ef þær aðstæður skapast að dýpi verður ekki nægjanlegt mun skipið sigla í Þorlákshöfn en með ölduspám og tíðum dýptarmælingum mun gefast að minnsta kosti tveggja sólarhringa ráðrúm til breytinga á áætlun,“ segir í tilkynningu.