Vinningshafar í jólastafaleiknum sem fór fram í desember samhliða opnun jólaglugganna í Árborg fengu vinningana sína afhenta í Ráðhúsi Árborgar í gær.
Alexía Björk Þórisdóttir 7 ára, Baldur Óli Kjartansson 9 ára og Jóhanna Elín Halldórsdóttir 6 ára voru dregin út og fengu þau í verðlaun gjafabréf fyrir fjölskylduna á Kaffi Krús og púsluspil. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar afhenti börnunum verðlaunin.
Jólastafaleikurinn fór þannig fram að í hverjum jólaglugga sem opnaði frá 1. til 24. desember var einn bókstafur sem raða þurfti í sérstakt þátttökublað. Þegar allir bókstafirnir voru komnir á blaðið átti setning að myndast sem hjálpaði þátttakendum að svara tveimur spurningum.
Síðan þurfti að skila þátttökublaðinu í sérstaka kassa eftir jólin en rétt tæplega 100 lausnir skiluðu sér inn.