Vinningsmiði í Lottóinu síðasta laugardag var keyptur á Flúðum en miðann keypti kona á besta aldri sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Vinningurinn var tæpar 36 milljónir króna.
Um helgina dreymdi konuna að hún hefði unnið í Lottóinu og fór því á sölustað eftir helgina til að láta skoða miðann og var sagt að ekki væri hægt að greiða þetta á staðnum, upphæðin væri of há og hún þyrfti því að fara til Getspár til að fá þetta greitt.
Konan hafði áður fengið vinning upp á rúmlega 30 þúsund krónur og hélt að þetta væri eitthvað svipað og spáði ekkert í hvaða upphæð hún hafði unnið. Hún varð því verulega hissa þegar henni var heilsað innilega og boðið innfyrir við komuna.
Þá var henni tjáð að hún hefði unnið um 36 milljónir, konunni varð orðfall og það komu tár, þvílík var undrun hennar og gleði þegar hún var búin að meðtaka tíðindin.
Fyrsti vinningur síðasta laugardag var rúmar 72 milljónir sem skiptast á milli tveggja vinningsmiða. Hinn miðinn var keyptur í Snælandi við Núpalind í Kópavogi og hefur vinningshafinn ekki gefið sig fram.