Vinnuferlar eineltismála verði skýrðir

Skýrsla starfshóps um verklag Grunnskólans í Hveragerði varðandi eineltismál var kynnt á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar í gær.

„Starfshópurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé um einelti að ræða í því tiltekna máli sem rannsakað var sérstaklega. Ljóst er þó að vinnuferla í meðferð eineltismála má skýra og bæta bæði innan GíH sem og milli GíH, félagsmálayfirvalda og fræðslunefndar. Að því verður unnið eins fljótt og auðið er,“ segir í bókun bæjarstjórnar á fundinum og því bætt við að ekki sé vitað til þess að áður hafi verið brugðist við ásökunum um einelti í íslenskum grunnskóla með jafn einörðum og faglegum hætti og hér var gert.

Starfshópinn skipuðu Þorlákur Helgason sérfræðingur Olweusaráætluninni, Kristín Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Skólaskrifstofu Suðurlands, Ragnar S. Ragnarsson, sálfræðingur og Ólafur Helgi Jóhannsson, lektor við Háskóla Íslands. Þorlákur Helgason, formaður hópsins mætti á fund bæjarstjórnar og kynnti skýrsluna.

Bæjarstjórn samþykkti að Þorláki verði falið að vinna með starfsmönnum GíH að úrbótum er varða framkvæmd Olweusaráætlunarinnar.

„Það er bæjarstjórn kappsmál að öllum börnum og unglingum líði vel í Grunnskólanum í Hveragerði hér eftir sem hingað til.“

Fyrri greinFótboltagolf er fyrir alla
Næsta greinGull en samt vonbrigði