Tveimur vinnuherbergjum í Sunnulækjarskóla hefur verið lokað eftir að í ljós kom að raki og mygla leyndust undir gólfdúki í herbergjunum.
Hermann Örn Kristjánsson, skólastjóri, tilkynnti foreldrum og forráðamönnum nemenda í 5. og 7. bekk þetta í tölvupósti í morgun en herbergin eru á vinnusvæðum bekkjanna í Múla á neðri hæð skólans.
„Við fengum ábendingar frá foreldrum tveggja barna sem höfðu áhyggjur af tíðum veikindum barna sinna og einkennum sem eru algeng hjá einstaklingum sem eru næmir fyrir myglu. Í kjölfarið var óskað eftir rakamælingu á kennslusvæðum þessara barna sem eru sama svæði,“ sagði Hermann Örn í samtali við sunnlenska.is.
Í ljós kom að kennslusvæðin sjálf eru rakalaus en augljós raki og staðfest mygla var í litlum vinnuherbergjum sem liggja á milli kennslusvæða.
„Þessi herbergi eru fjölnota herbergi fyrir pásur og vinnustundir í litlum hópum. Herbergin hafa verið tekin úr umferð og búið er að gera viðeigandi ráðstafanir til að lagfæra þau í sumar. Í framhaldi höfum við óskað eftir því að öll rými í skólanum verði rakamæld á næstu dögum svo bregðast megi við með lagfæringum ef á þarf að halda fyrir næsta skólaár,“ sagði Hermann ennfremur.
Síðasti kennsludagur í Sunnulækjarskóla er á morgun og skólaslit eru á miðvikudaginn.