Vinstri grænir stilla upp

Kjördæmisráð Vinstri grænna í Suðurkjördæmi samþykkti um helgina að viðhafa uppstillingu á framboðslista Vg fyrir þingkosningarnar á næsta ári.

Niðurstaðan var samhljóða að því er segir á heimasíðu flokksins en stefnt er að því að framboðslisti verði tilbúinn í byrjun desember.

„Á fundinum var farið yfir stöðu VG í kjördæminu og mikilvægi þess að hreyfingin eigi þar þingmann, í það minnsta einn. Mikil samstaða einkenndi fundinn og eru vinstri græn í Suðurkjördæmi full bjartsýni og baráttuanda,“ segir ennfremur á heimasíðu Vg.

Atli Gíslason leiddi lista Vg í síðustu kosningum en hann sagði skilið við flokkinn á kjörtímabilinu. Arndís Soffía Sigurðardóttir, varaþingmaður Vg, sem skipaði 2. sætið í síðustu kosningum hefur lýst því yfir að hún sé tilbúin að leiða listann í komandi kosningum.

Fyrri greinFyrstu forkeppninni frestað um viku
Næsta greinGrímur fékk blóm frá Árborg