Vínylplötunni fylgir ákveðinn sjarmi

Vínylplatan nýtur aukinna vinsælda eftir að hafa þurft að lúta í gras fyrir geisladisknum á níunda áratugnum. Fjölmargir hafa safnað vínylplötum í gegnum tíðina og einn þeirra er Selfyssingurinn Heimir Tómasson.

Þegar mest lét átti Heimir yfir eittþúsund vínylplötur með tónlist úr öllum áttum. Heimir seldi allt safnið þegar hann stofnaði fjölskyldu en hefur hafið söfnunina á nýjan leik og er hún orðin mun sérhæfðari en áður.

Fyrsta platan var með Shaken Stevens
Heimir segir að tónlist hafi alltaf verið stór hluti af lífi hans og var hann mjög ungur þegar vínylplötusöfnunin hófst. „Ætli ég hafi ekki verið átta eða tíu ára þegar ég keypti fyrstu plötuna. Það var plata með Shaken Stevens, sem er pínu sakbitin sæla hjá mér. Ég man að ég keypti þessa plötu í búð sem var staðsett á sama húsnæði og Hjólabær er núna og seldi sjö tommu plötur.“

Þá var Heimir einnig í hljómsveitastússi á unglingsárunum. Meðal annars var hann í þungarokksveitinni Baðönd og í hljómsveitinni Bacchus sem sá m.a. um að hita upp fyrir stórhljómsveitina Todmobile.

Sérviska safnarans
Þegar vínylsöfnun Heimis stóð sem hæst fékk hann oft gefins plötusöfn. „Þá valdi ég bara úr safninu þær plötur sem ég vildi eiga en gaf svo hitt í safnarabúðir. Á þessum tíma voru ekki margir sem voru að safna vínylplötum og maður þekkti þá flesta með nafni,“ segir Heimir og bætir við að svona söfnun fylgi ákveðin sérviska.

„Öllu safninu mínu var raðað upp í stafrófsröð og eftir listamönnum. Þó voru undantekningar. David Bowie var ekki í D-inu heldur í B-inu af því það er alltaf talað um Bowie og Led Zeppelin var í Z-nni af því það er oft talað um Zeppelin.“

Snýst um hugarástand
En hvað er það sem heillar Heimi við vínylplötuna? „Þetta snýst mikið um hugarástand. Það að taka fram plötuna, skoða aftan á hana, taka plötuna úr umslaginu, þurrka af henni rykið og setja hana svo á fóninn og heyra snarkið. Það fylgir vínylplötunni ákveðinn sjarmi sem er svolítið farinn með þessari nútímatækni. Hér áður fyrr þurftirðu að hafa fyrir því að fara milli plötubúða til að finna eitthvað lag sem var á ákveðinni plötu. Núna ferðu bara inn á Youtube eða Google og finnur lagið nánast án fyrirhafnar,“ segir Heimir að lokum.

Fyrri greinUmhverfisverðlaun á fimm staði
Næsta greinBrúin vígð mánuði á undan áætlun