Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti Hvolsskóla á Hvolsvelli í gær á Degi íslenskrar náttúru.
Guðmundur heimsótti nemendur í yngstu bekkjum Hvolsskóla og fylgdist með börnunum móta merki skólans og einkennisorðin: Gleði, virðing, vinátta, úr laufum og greinum og ýmsu sem hægt var að finna á skólalóðinni.
„Það var virkilega gaman að hitta krakkana í Hvolsskóla og taka þátt í listsköpun úr efniviði íslenskrar náttúru. Mikilvægi menntunar til sjálfbærni verður seint ofmetið og jákvæð áhrif þess út í samfélagið til lengri og skemmri tíma. Við þurfum að standa vörð um þessi gildi hér eftir sem hingað til,“ sagði Guðmundur Ingi eftir heimsóknina.
Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert og hafa skólar haldið daginn hátíðlegan með þátttöku í verkefninu Náttúran í nærumhverfinu. Verkefnið felur í sér að nemendur eru hvattir til að nota náttúruna sem innblástur til listrænnar sköpunar og er það útfært sérstaklega fyrir hvert aldursstig. Verkefnin er hægt að vinna jafnt á skólalóð, sem og í næsta umhverfi og taka þau mið af ólíkri getu og úthaldi nemenda.
Að verkefninu standa mennta- og menningarmálaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samstarfi við Landvernd og Reykjavíkurborg.