Virkjuðu SMS-girðingu umhverfis Heklu

Skilaboðin sem bárust í síma Rangæinga og gesta þeirra í gær. Skjámynd/Aðsend

Almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurlandi virkjuðu í gær SMS-skilaboð, sem verða send til fólks sem fer inn á fyrirfram skilgreint svæði umhverfis Heklu.

Í skilaboðunum var fólk nálægt Heklu beðið um að gæta varúðar, þar sem það væri nálægt virku eldfjalli sem gæti gosið nánast fyrirvaralaust. Skilaboðin tóku að berast í síma Rangæinga í gær, um svipað leiti og SMS-kerfið var virkjað í kringum Fagradalsfjall á Reykjanesi og héldu því margir að um mistök væri að ræða.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir að svo hafi ekki verið. „Það var virkjuð svo kölluð SMS-girðing fyrir Heklu. Þetta var ákveðið fyrir jól en kom til framkvæmdar í gær,“ sagði Víðir í samtali við sunnlenska.is.

Þetta er gert til þess að upplýsa ferðafólk um að það sé komið inn á svæði nálægt Heklu þar sem lítill fyrirvari er til þess að bregðast við ef eldgos hefst.

Síðast gaus í Heklu árið 2000 og þar á undan liðu 9 til 10 ár á milli síðustu gosa. Mælingar á þenslu sýna að kvikuþrýstingur í kvikuhólfi undir Heklu hafi náð sama marki árið 2006 og það var fyrir eldgosið árið 2000.

Engir fyrirboðar um gos
Engir sérstakir fyrirboðar eru um að Hekla sé nær því að gjósa nú en áður, en rétt þykir að nýta þessa tækni til þess að upplýsa fólk sem fer á þetta svæði um hættuna.

Ekki er hægt að útiloka að SMS-skilaboðin berist til fólks aðeins utan við skilgreint svæði og er því almenningur beðinn um að hafa það í huga. Lögreglustjórinn á Suðurlandi varar fólk við því að fara í göngu á Heklu.

Fyrri greinSmitum fjölgar hratt á Suðurlandi
Næsta greinÞórsarar töpuðu nágrannaslagnum