Bæjarstjórn Ölfuss hafnaði á síðasta fundi sínum að veitt verði rannsóknarleyfi til Sunnlenskrar orku ehf. sem hefur haft uppi áform um virkjun í Grændal ofan við Hveragerði.
Í samþykkt bæjarstjórnar segir að unnið sé að því að gera hverfisvernd fyrir Reykjadal, Grændal og svæðið þar í kring og falla fyrirhuguð áform, rannsóknarboranir og e.t.v. virkjanir, ekki að þeirri stefnu sem bæjarstjórn vinnur að fyrir umrætt svæði.
Hróðmar Bjarnason bæjarfulltrúi lagði fram sérstaka bókun vegna þess, þar sem hann fagnar því að bæjarstjórn Ölfuss hyggst halda fast við fyrri stefnu sveitarfélagsins um algera friðun bæði Reykjadals og Grændals. Í samtali við Sunnlenska sagðist Hróðmar vonast til þess að þar með væru þessi áform úr sögunni enda taldi hann að hér væri um að ræða svæði sem mikilvægt væri að varðveita. Hróðmar sagðist halda að nú væri lokið tilraunum til að virkja í Grændal.
Sunnlensk orka er í eigu Rarik, sem á 90% en Sveitarfélagið Ölfus og Hveragerðisbær eiga hvort um sig 5%.
Beiðni Sunnlenskrar orku ehf. snérist um rannsóknarleyfi til 7 ára. Hluti svæðisins er innan Sveitarfélagsins Ölfuss og hluti innan Grímsnes- og Grafningshrepps. Sunnlensk orka hefur áformað að byggja lítið raforkuver við mynni Grændals, fyrir allt að 10 MW.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, sagði að það hefði komið á óvart að þessi umsókn hefði verið send þar sem málið hefði ekki verið tekið fyrir í stjórn Sunnlenskrar orku. ,,Það er ekkert launungarmál að Hvergerðingar hafa barist gegn virkjunaráformum á þessu svæði,“ sagði Aldís. Hún benti ennfremur á að ráðist hefði verið í stofnun Sunnlenskrar orku fyrir 14 til 15 árum og margt hefði breyst síðan sem gæti kallað á endurskoðun á uppleggi félagsins.