Hellisheiðin er enn lokuð vegna ófærðar en unnið er að mokstri. Það verk sækist seint þar sem losa þarf fjölda bíla en fjölmargir ökumenn virtu lokun heiðarinnar að vettugi.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var lokað fyrir akstursleiðir með sérstökum búkkum í stað þess að láta björgunarsveitafólk eða lögreglumenn standa vaktina. Það dugði þó skammt þar sem fjölmargir ökumenn ákváðu, þrátt fyrir lokun, að leggja á heiðina og sitja bifreiðir þeirra nú fastar þvers og kruss um Hellisheiði.
Ekki er búist við að opnað verði fyrir umferð fyrr en seint í nótt eða á morgun.
Vegagerðin brýnir fyrir fólki að fara eftir tilmælum og aka ekki eftir leiðum sem eru lokaðar, slíkt skapi bæði slysahættu og seinki vinnu Vegagerðarinnar.
Ökumönnum er bent á að aka Þrengslin þar sem sú akstursleið er nú fær öllum bifreiðum.