„Draumurinn er að við getum komist lengra í fornleifarannsóknum og kortlagt Oddastað þannig að hægt verði að byggja þar upp í samræmi við það,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra og formaður Oddafélagsins sem vinnur að því að gera Odda á Rangárvöllum að miðstöð menningar á ný.
Fyrstu fornleifarannsóknir í þriggja ára áætlun hófust síðasta sumar og fundust strax stórmerkar minjar, elstu manngerðu hellar sem þekktir eru á Íslandi. Þá er komin aðstaða fyrir Oddafélagið, vísir að Fróðasetri.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ágúst að fundurinn hafi vakið mikla athygli og aukið áhuga fólks á að ganga í Oddafélagið og vinna með því.’