Hin sívinsæla Háskólalest Háskóla Íslands heldur af stað í vikunni í sína árlegu ferð um landið og staðnæmist fyrst í Vík í Mýrdal, en lestin heimsækir alls fjóra áfangastaði í maímánuði.
Föstudaginn 5. maí sækja nemendur 6.-10. bekk í Grunnskóla Mýrdalshrepps og Kirkjubæjarskóla á Síðu valin námskeið í Háskóla unga fólksins en þar glíma þau m.a. við efnafræði, stjörnufræði, vindmyllusmíði, forritun og eðlisfræði.
Daginn eftir, laugardaginn 6. maí, verður Mýrdælingum og nærsveitamönnum boðið til veglegrar vísindaveislu í Félagsheimilinu Leikskálum frá kl. 12 til 16. Þar geta gestir spreytt sig á alls kyns þrautum, tækjum og tólum, kynnt sér japanska tungu, ferðast um himingeiminn í stjörnutjaldinu, kynnst undrum efnafræðinnar, prófað vindmyllusmíði og gert ýmiss konar óvæntar uppgötvanir.
Háskólalestin hefur heimsótt hátt í 30 staði víða um land frá því að henni var ýtt af stað á aldarafmælisári skólans árið 2011. Lestin brunar nú um landið sjöunda árið í röð en áhöfnin hefur frá upphafi lagt áherslu á lifandi og skemmtilega miðlun vísinda til fólks á öllum aldri.