„Vissu ekki að fiskur gæti verið svona góður“

Tómas Þóroddsson á Messanum á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Veitingastaðurinn Messinn hefur aldeilis slegið í gegn síðan hann opnaði í miðbænum á Selfossi í sumar.

„Við opnuðum í byrjun júlí. Selfyssingar hafa tekið okkur rosalega vel og svo er alltaf að aukast núna að útlendingar séu farnir að fatta okkur. Túristunum hefur kannski fækkað aðeins með haustinu á landinu en fjölgar hjá okkur, því að það voru svo margir sem vissu ekki af okkur í sumar,“ segir Tómas Þóroddsson, eigandi Messans, í samtali við sunnlenska.is.

Ekki hægt fyrir tuttugu árum
Tómas er á því að bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn séu farnir að kunna að meta fiskinn betur. „Útlendingar hafa alltaf kunnað að meta íslenska fiskinn. Það er eitt af því sem þeir vilja gera þegar þeir koma til Íslands – það er að smakka fiskinn okkar. En svo eru Íslendingar – þeir geta farið út að borða núna og fengið sér fisk. Það var kannski ekki hægt fyrir tuttugum árum síðan – þá var það bara soðningur og fiskur flokkaðist sem mánudagsmatur.“

Á Messanum er hægt að fá fjölbreytt úrval fiskrétta. Sérréttir Messans eru án efa fiskipönnurnar en þær eru bornar fram með ferskum fiski ásamt smjörsteiktum kartöflum og grænmeti. „Það er mjög blandað hvað er vinsælast hjá okkur. Bleikjan er rosa vinsæl og líka gellurnar. Svo vorum við að setja lúðu á matseðilinn núna sem hefur slegið í gegn. Sjávarréttasúpan er einnig rosa vinsæl hjá okkur.“

„Við fáum fiskinn ferskan beint af markaði, það má hrósa sjávarútvegnum sérstaklega fyrir skilvirkt og gott kerfi þar sem hægt er að panta fiskinn áður en hann er kominn í land.“

Messinn býður upp á hádegistilboð alla virka daga og sumir er fastagestir í fisk á mánudögum. Ljósmynd/Messinn

Oft allt fullbókað
Sem fyrr segir þá er fiskurinn vinsæll bæði hjá Íslendingum og erlendum ferðamönnum en matarvenjur fólks eru þó misjafnar. „Það er mjög misjafnt hvort fólk tekur þríréttað þegar það kemur að borða hjá okkur. Túristinn fer almennt í þríréttað. Íslendingarnar eru frekar að fá sér pönnu og hvítvínsglas,“ segir Tómas og bætir því að það sé vissara að hringja og bóka borð um helgar því að staðurinn er oft fullbókaður þá.

Stærsti kúnnahópurinn Messans er fólk sem er fjörutíu ára og eldra en yngra fólkið kemur líka. „Um síðustu helgi vorum við til dæmis með 25 ára stráka, tólf manna hóp og það var mjög gaman að þeir skyldu velja að fara í fisk allir saman. Þeir sögðu „þetta er besti fiskur sem ég hef smakkað“. Fengu sér lúðu og höfðu orð á því að þeir vissu ekki að fiskur gæti verið svona góður,“ segir Tómas og hlær.

Eldri sjómenn fá nostalgíu
Þeir sem hafa snætt á Messanum hafa flestir orð á því hvað staðurinn er fallega hannaður og skapar þessi hönnun alveg einstaka stemningu. Hönnunin var í höndum Hálfdans Pedersen, innanhúsahönnuðar, en Tómas var líka eitthvað með puttana í útfærslum á hugmyndunum og er hann mjög sáttur við útkomuna.

„Fólk er rosa ánægt með hönnunina á staðnum og hefur oft orð á því þegar það kemur að borða hjá okkur. Það er sérstaklega gaman að fá eldri sjómenn hingað inn – þeim finnst alveg geggjað að koma hingað og fá alveg nostalgíu.“

Ljósmynd/Messinn

Ekta jólastemning í desember
Á aðventunni verða jólahlaðborð á Messanum. „Í hádeginu verðum við með jólahlaðborð, fiskipönnur á hlaðborði, reyktan og grafinn lax, síld og svona. Þetta verður alla fimmtudaga og föstudaga fyrir jól. Á Þorláksmessu verður svo skötuhlaðborð sem við erum mjög spennt fyrir. Á skötuhlaðborðinu verða líka fiskipönnur, síld, plokkfiskur og fleira þannig að þetta er eiginlega skötuhlaðborð fyrir alla – þú þarft ekkert endilega að borða skötu til að mæta. Hlaðborðið byrjar hálf tólf og er allan daginn. Það verður mikil jólastemning í miðbænum sem mun gera upplifunina ennþá skemmtilegri. Sjón er sögu ríkari,“ segir Tómas að lokum.

Fyrri greinFlóaskóli sigraði í Eftirréttakeppni grunnskólanna
Næsta grein„Við getum ekkert hagað okkur“