Fulltrúar minnihlutans í stjórn framkvæmda- og veitusviðs Árborgar gagnrýna að auglýst hafi verið eftir nýjum lykilstarfsmanni án umfjöllunar í stjórn nefndarinnar eða án vitundar kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins.
Eggert Valur Guðmundsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, á einnig sæti í bæjarstjórn og bæjarráði. Hann sagði í samtali við Sunnlenska að sér þætti undarlegt að ráða ætti slíkan lykilstarfsmann án þess að honum eða öðrum fulltrúum í stjórn sé kunnugt um slíkt.
Um er að ræða nýtt starf sem ekki er í skipuriti sveitarfélagsins og segir Eggert að honum sé ekki kunnugt um að gert sé ráð fyrir slíku í fjárhagsáætlun. Starfsheitið er „Umsjónarmaður umhverfis og framkvæmda“ en starfið heyrir undir tækni- og veitustjóra. Capacent Ráðningar sjá um ráðningarferlið.
„Ég undraðist þetta þegar ég sá þetta auglýst,“ segir Eggert. „Ég hyggst leita eftir áliti ráðuneytis á fleiri stjórnsýsluákvörðunum sem teknar hafa verið án vitneskju kjörinna fulltrúa á síðustu vikum.“