„Veiðin hefur verið mjög góð og það hefur verið vitlaust að gera í humrinum hjá okkur. Við erum reyndar að verða búnir með kvótann þannig að það fer að styttast í þessu.
Það er mikil eftirspurn eftir humrinum en hann fer til Spánar en halarnir fara til Kanada og eitthvað á innanlandsmarkað, það virðast allir vera brjálaðir í þessa vöru enda slegist um hana,“ segir Gísli Eiríksson, verkstjóri í humarvinnslu Auðbjargar í Þorlákshöfn.
Auðbjörg er með tvo báta á humar og makrílveiðum, Ársæl og Arnar, sem koma oftast drekkhlaðnir að landi en tuttugu og fimm sjómenn starfa á bátunum.
Á myndinni má sjá skólakrakka sem vinna í humarvinnslu Auðbjargar í Þorlákshöfn, oft 10 til 12 tíma á dag. Á milli 50 og 60 grunnskóla- og framhaldsskólanemendur vinna í humrinum.