Úrkomusvæði nálgast nú landið úr suðvestri og frá því kemur til með að snjóa á hærri fjallvegum, en krapi og bleytusnjór ofan um 200-300 m.
Fyrst á Hellisheiði og Mosfellsheiði fljótlega eftir að birtir og víðast á landinu um og eftir hádegi. Suðvestanlands hlýnar hins vegar og hlánar síðdegis.
Þetta kemur fram í ábendingu veðurfræðings á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Hálkublettir eru á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs. Annars eru allar helstu leiðir á landinu greiðfærar.
Vakin er athygli á að hálendisvegir eru nú víða orðnir ófærir. Skemmdir hafa orðið á austasta hluta Fjallabaksleiðar nyrðri (F208) og er vegurinn því lokaður.
Brúin yfir Eldvatn við Ása er lokuð vegna skemmda.