Spáð er talsverðri rigningu um landið sunnan- og vestanvert á morgun, miðvikudag 19. október og fram yfir hádegi á fimmtudag, 20. október.
Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla á þessum svæðum og þar gæti sólarhringsúrkoma farið vel yfir 100 mm.
Varað er við vexti í ám á Hvítársvæðinu (bæði vestur og suður af Langjökli), kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul.
Fólk er beðið um að sýna aðgát í nágrenni vatnsfalla og sérstaklega ef fara þarf yfir ár, þar sem vöð geta orðið varhugaverð.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.