„Vona að réttlætið sigri“

Kolbrún ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fjórir dagar eru síðan kennaraverkfall hófst í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum. Þar á meðal er leikskólinn Óskaland í Hveragerði þar sem 109 börn eru á leikskóla.

Kolbrún Birna Ebenezar á dreng á Óskalandi. „Verkfallið eins og er hefur ekki mikil áhrif á strákinn okkar, þó hann skilji nú ekki afhverju hann megi ekki mæta í leikskólann og hjálpar ekki að hann var í viku veikindum áður en verkfallið tók við,“ segir Kolbrún í samtali við sunnlenska.is.

„Við eigum gott bakland en því miður þá eru ekki allir svo heppnir og eiga margir hug minn þessa dagana, sérstaklega þau sem þurfa að nýta sumarfrísdaga og annað til að brúa bilið.“

Aðlögun frestast
Kolbrún á einnig dóttur sem átti að fara að byrja í leikskólanum þegar verkfallið hófst. „Hún átti að byrja í aðlögun 4. febrúar, sem vissulega varð ekkert úr. En hún einmitt verður 2 ára í maí næstkomandi og vonandi verður þetta búið að leysast fyrir það.“

„Auðvitað hefur það ekki mikil áhrif á hana þar sem að hún þekkir ekkert annað en að vera með okkur, enda búnar að vera saman í „orlofi“ síðan 2023 sem hefur ekki verið neitt annað en dásamlegur tími.“

Kolbrún segir hún hafi fengið símhringingu í desember síðastliðnum þar sem henni var tjáð að það væri að koma að aðlögun á leikskólanum. Í framhaldinu fór hún á fullt að keyra fyrirtækið sitt, Skipulag og þrif, á fullt.

„Ég þurfti að aðeins að draga úr því þar sem að ég gat ekki farið á fullt út á vinnumarkaðinn. Það er ákveðinn skellur fjárhagslega séð eftir tvö ár í orlofi.“

Nágranninn heldur sínu striki
Óskaland er annar tveggja leikskóla í Hveragerði en leikskólinn Undraland fer ekki í verkfall og er starfsemi með hefðbundnu sniði þar.

„Mér finnst alveg virkilega skrítið að í svona litlu samfélagi eins og Hveragerði er að það gildi ekki sömu reglur um svona stór mál eins og verkfallið. Sem dæmi að þá bý ég í fjölbýli og hér er allt í stopp hjá okkur á meðan nágranninn í næstu íbúð heldur sínu striki. En það eru greinilega einhver rök fyrir því sem maður þekkir ekki til. Þessar aðgerðir skila vonandi árangri og ég vona að þetta verði allt saman þess virði.“

Skiptir okkur öll máli
Kolbrún segir að allur hennar stuðningur sé hjá kennurum og öllu því baráttufólki sem stendur á bakvið þá.

„Það sem ég bara skil ekki er afhverju svona stórar stéttir, hvort sem það eru kennarar eða fólk sem starfar við heilbrigðisgeirann, þurfi að berjast fyrir betri kjörum. Þetta skiptir okkur öll máli.“

„Það er vissulega ekki skylda okkar að setja börn í leikskóla en það er skólaskylda á Íslandi og er þá ekki bara betra að kennarar og leikskólakennarar fái mannsæmandi laun, því jú eins og við vitum að þá eru kennarar þeir sem mennta okkur og fræða og framtíðin getur mótast af því. Í lokin vil ég bara segja að ég vona að réttlætið sigri og allir ganga sáttir frá borði. Áfram kennarar!,“ segir Kolbrún að lokum.

Fyrri greinViðburðaríkur sólarhringur hjá björgunarsveitunum
Næsta greinLukkan ekki með Selfyssingum í Smáranum