Í fyrirspurnartíma á Alþingi í síðustu viku spurði Píratinn Andrés Ingi Jónsson Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hvernig ráðherra hyggðist tryggja framtíð heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Árið 2020 var gerður samningur um heimavist á gistiheimili við Austurveg á Selfossi, sem rann út um síðustu áramót en hefur nú verið framlengdur. Andrés Ingi telur það ekki varanlega lausn að samnýta gistiheimili og spurði því ráðherra hver framtíð heimavistarinnar væri.
Í svari ráðherra kom fram að búið sé að gera þriggja ára samning um heimavist í núverandi húsnæði við Austurveginn.
„En það er líka þannig að við gerum ráð fyrir framtíðarlausn fyrir heimavist á Fjölbrautaskóla Suðurlands og það verði byggð ný heimavist á lóð skólans. Það er hluti af framkvæmdaáætlun um kennsluhúsnæði í starfsmenntaskólum,“ segir Ásmundur en í þeirri áætlun er einnig gert ráð fyrir viðbyggingu við verknámshúsið Hamar og endurbótum á byggingjum garðyrkjuskólans á Reykjum.
„Þetta er eitt af því sem ég hef lagt áherslu á við vinnslu fjármálaáætlunar núna,“ bætti ráðherra við og sagði að hann bindi vonir við að verkefnið verði inni í endanlegri útgáfu fjármálaáætlunar.
„Það eru eilitlar breytingar sem við erum að óska eftir í millifærslum milli málefnaflokka og málefnasviða og […] gangi þær eftir þá erum við með þetta fjármagnað eins og staðan er í dag,“ sagði Ásmundur Einar.