Mennirnir tveir sem reyndu að stinga lögregluna af eftir innbrot í sumarbústaði í Úthlíð í síðustu viku brutust inn í a.m.k. tvo bústaði og voru undir áhrifum fíkniefna þegar för þeirra lauk utan vegar í nágrenni Reykjavíkur.
Lögreglan fékk tilkynningu um innbrotið kl. 4:51 og mætti mönnunum á Biskupstungnabraut við Svínavatn. Þeir virtu ekki stöðvunarmerki og héldu sem leið lá vestur Biskupstungnabraut, norður Þingvallaveg og þaðan um Grafning inn á Nesjavallaleið. Þar óku þeir framhjá naglamottu lögreglu en þegar þeir reyndu sama leik niður undir Suðurlandsvegi við Reykjavík missti ökumaðurinn bílinn útaf og komst ekki lengra.
Í nokkrum fjölmiðlum sama dag var fjallað um „æsilega eftirför“ og segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, að slíkar fyrirsagnir gefi ekki rétta mynd af því sem fram fór.
„Lögreglumaður sem á eftir bílnum ók gaf upp stöðu, akstursleið og aksturslag reglulega í fjarskiptum. Staða lögreglubifreiða sést jafnframt á skjám í stjórnstöðvum lögreglustöðva. Á sama tíma voru gerðar ráðstafanir með að taka á móti bílnum miðað við hugsanlegar akstursleiðir hans. Samræmingu þess annast Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra sem staðsett er í Skógarhlíð,“ segir Oddur í dagbók lögreglunnar á Selfossi.
„Þaðan er jafnframt kallað eftir sjúkrabifreiðum til að vera til taks ef eitthvað fer úrskeiðis. Allar ákvarðanir um staðsetningu lokana eru gaumgæfðar æsingalaust um fjarskipti og síðan settar upp með þeim hætti sem verklagsreglur segja til um og æft hefur verið. Þegar ökumaðurinn virðir ekki lokanir er einfaldlega tekið til við að setja upp næstu lokun á sama hátt. Upplifun mín af því að fylgjast með hvernig unnið var var langt frá því að um „æsilega“ eftirför væri að ræða heldur miklu frekar vandaða aðgerð fagmanna við að leysa afar vandasamt og hættulegt verkefni,“ segir Oddur ennfremur.
Mennirnir reyndust hafa brotist inn í a.m.k. tvö sumarhús skammt frá Úthlíð og höfðu þeir á brott með sér töluverð verðmæti. Skemmdir á sumarbústöðunum voru hinsvegar minniháttar. Þá reyndust þeir hafa stolið skráningarnúmerum af bíl á Selfossi áður en haldið var upp í innbrotsleiðangurinn.