„Vont að vita af þeim einum uppi í sumarbústað“

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Heilbrigðisyfirvöld hvetja fólk alls ekki þess að flytja sig á milli heilbrigðisumdæma í COVID-19 veikindum en mörg dæmi eru um að fólk hafi valið að fara í einangrun í sumarbústöðum á Suðurlandi.

„Við vitum að fólk getur verið mjög lasið af covid og þá er vont að vita af þeim einum uppi í sumarbústað. Ástand fólk getur versnað skyndilega og sjúkraflutningar í sumarhúsabyggðum geta verið erfiðir, þá fyrst og fremst er oft langt í aðstoðina og mis gott er að finna sumarhúsin á svæðinu,“ segir Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, í samtali við sunnlenska.is.

Það sem við höfum mestar áhyggjur af er að veikt fólk sé að flytja sig fjær nauðsynlegri heilbrigðisþjónustunni. Nú er að vetra og færð getur breyst skyndilega og misjafnt eftir sumarhúsasvæðum hversu oft vegir eru ruddir,“ segir Elín Freyja ennfremur og bætir við að allmargir einstaklingar hafi nýtt sér þetta úrræði til þess að einangra sjálfan sig frá restinni af fjölskyldunni.

„Við skiljum þetta mæta vel og höfum svo sem ekki annað úrræði sem við gætum ráðlagt fólki í staðinn.“

Fólk haldi sig nær nauðsynlegri þjónustu
Elín Freyja ráðleggur fólki að finna aðrar lausnir fyrir einangrun en sumarhúsin sín og haldi sig þannig nær nauðsynlegri þjónustu. Enginn geti vitað fyrirfram hvernig covid-veikindi fara með fólk.

Í dag eru 62 í einangrun á Suðurlandi en Elín segir að fjöldinn sem haldi til í sumarhúsum sé mjög rokkandi.

„Við höldum utan um alla sem eru í einangrun á okkar svæði, hvort sem þeir eru með lögheimili á Suðurlandi eða ekki. Þetta eru oftast um 10 til 15 manns, þar sem um helmingur gefur upp heimilisfang einangrunar í sumarhúsi. Við höfum ekki verið að rýna jafn mikið í þá sem eru í sóttkví, en höldum utanum heildarfjöldann,“ segir Elín Freyja að lokum.

Fyrri greinSmitum fjölgar lítillega en talsvert fækkar í sóttkví
Næsta greinBæjarfulltrúar sameinast um gerð fjárhagsáætlunar