Áköf leit stendur yfir hjá lögreglunni á Selfossi að ungum manni sem framdi vopnað rán í verslun Samkaupa á sjötta tímanum í dag.
Maðurinn ógnaði starfsstúlku á afgreiðslukassa með hnífi og hljóp svo á brott með ránsfenginn sem var tóbak.
Lögreglan var fljót á vettvang og hóf þegar leit að manninum í nærliggjandi íbúðarhverfum og stendur sú leit enn yfir. Allt tiltækt lögreglulið leitar nú mannsins á Selfossi.
Svanur Kristinsson, varðstjóri hjá lögreglunni, sagði í samtali við sunnlenska.is að starfsstúlkunni hafi ekki orðið meint af en henni hafi skiljanlega verið mjög brugðið. „Hún stóð sig eins og hetja og fékk svo að fara heim eftir að hafa gefið okkur upplýsingar,“ sagði Svanur.