Í dag, fimmtudag, leggur Vorlestin upp hringinn í kringum landið og er fyrsti viðkomustaðurinn Hvolsvöllur, en í dag verður líka stoppað í Vík og á Klaustri.
Vorlestin er verkefni sem Jötunn Vélar á Selfossi standa fyrir ásamt fimm öðrum fyrirtækjum sem leggja land undir fót og kynna vörur og þjónustu fyrirtækjanna. Auk Jötuns eru það Lífland, Mjöll/Frigg, Landsbankinn, ib.is og Skeljungur.
Alls verður stoppað á fimmtán stöðum umhverfis landið næstu sjö dagana en hringnum verður lokað á Selfossi þann 22. apríl.
„Þetta er annað árið sem við gerum þetta. Þá gekk ferðin mjög vel og mætingin var góð þannig að okkur líst þannig á það að þannig á þetta verði árlegur viðburður,“ sagði Guðmundur Þór Guðjónsson, fjármálastjóri Jötuns, í samtali við sunnlenska.is.
„Þetta er gríðarlega mikil útgerð, í heildina eru fjórtán manns á ferðinni. Við verðum með sex traktora, tvo rafmagnsbíla og ýmis landbúnaðartæki og Ingimar Baldvins verður með bíla til prufuaksturs svo eitthvað sé nefnt,“ segir Guðmundur, en meðal þess sem Jötunn sýnir í ferðinni er ný liðstýrð dráttarvél frá Valtra.
Jötunn Vélar er leiðandi í sölu dráttarvéla á Íslandi, með um 50% markaðshlutdeild og árið 2014 var þriðja árið í röð sem fyrirtækið var með tvær söluhæstu dráttarvélategundirnar á landinu. Þar trónir Massey Ferguson á toppnum.
Þeir sem heimsækja Vorlestina eiga von á veglegum gjöfum frá fyrirtækjunum. „Eitt af því sem við bjóðum uppá hjá Jötni er að allir sem svara spurningum frá Jötni og reynsluaka nýrri dráttarvél fá heyrnarhlífar með útvarpi eða ennisljós frá okkur. Auk þess erum við með réttan spurningaleik þar sem dregið verður um sólarlandaferð og veglega aukavinninga í lok ferðar,“ segir Guðmundur ennfremur.
Í dag starfa 40 manns hjá Jötunn Vélum. Heimavöllur fyrirtækisins er á Selfossi en fyrirtækið rekur einnig starfsstöðvar á Egilsstöðum, Akureyri og í Garðabæ. Vorlestin kemur einmitt við á Egilsstöðum á laugardaginn og á Akureyri á sunnudaginn.