Vörubíll alelda á Þrengslavegi

Slökkvistarf á Þrengslavegi í kvöld. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði voru kallaðir út klukkan 19 í kvöld eftir að eldur kviknaði í vörubíl með tengivagni á Þrengslavegi, skammt frá vegamótunum í Svínahrauni.

Bíllinn var á vesturleið þegar eldur kom upp í stýrishúsi hans. Bíllinn var alelda þegar slökkviliðið bar að garði og eldur farinn að læsa sig í tengivagninum.

„Þeir náðu að afstýra því að það kviknaði í tengivagninum en hann var fulllestaður af fiskimjöli sem er þurrt og eldfimt. Það er ekki aðgangur að vatni þarna á svæðinu þannig að við kölluðum til tankbíla með vatn frá Hveragerði, Þorlákshöfn og Selfossi,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Ökumaðurinn var einn í bílnum og slapp hann út án meiðsla en bíllinn er gjörónýtur.

Fyrri greinGerir óspennandi en nauðsynlega hluti skemmtilega
Næsta greinNýbyggð bauð lægst í dæluhús