Vörubíll valt á Hellisheiði

Frá vettvangi slyssins á Hellisheiði í dag. Ljósmynd/BÁ

Vöruflutningabifreið á leið til austurs valt á Hellisheiði rétt fyrir klukkan tvö í dag.

Viðbragðsaðilar frá sjúkraflutningum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, lögreglunni á Suðurlandi og Brunavörnum Árnessýslu voru kallaðir á vettvang.

Ekki kom til þess að beita þyrfti klippum til þess að ná ökumanninum út úr bifreiðinni og var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild á Selfossi.

Ökumenn sýni aðgát
Slæmt skyggni er á Hellisheiði, þoka, slagveðurs rigning og rok. Af þeim sökum var ákveðið að bifreiðin yrði ekki flutt af staðnum fyrr en skyggni verður betra og eru ökumenn beðnir að sýna aðgát er ekið er fram hjá vettvangnum.

 

Fyrri greinArctic Adventures og Into the Glacier sameinast
Næsta greinSelfoss skiptir um erlenda leikmenn