„Vorum hræddir um að missa þetta hús“

Frá slökkvistarfi í Gagnheiðinni í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Allt tiltækt lið Brunavarna Árnessýslu frá Selfossi og Hveragerði var kallað út um klukkan hálftólf í kvöld eftir að eldur kom upp í húsnæði AB varahluta í Gagnheiði á Selfossi.

„Það var talsverður eldur á efri hæð hússins þegar við fengum boðin. Þegar fyrsta slökkviliðseiningin okkar kom á staðinn fóru reykkafarar inn í húsið og þeir voru snöggir að slá á eldinn. Það er talið líklegt að það sé að brenna þarna í hleðslurafhlöðum og það er ennþá einhver smá eldur í þessu núna sem þeir eru að vinna í,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, þegar sunnlenska.is ræddi við hann á vettvangi laust fyrir klukkan tólf.

„Þetta lítur svo sannarlega ekki eins illa út núna og það gerði í fyrstu. Miðað við fyrstu upplýsingar þá vorum við hræddir um að við myndum missa þetta hús þannig að við boðuðum mjög sterkt viðbragð strax. Það eru tæplega þrjátíu manns frá okkur hér á staðnum með þrjá dælubíla, tvo tankbíla og einn körfubíl,“ sagði Pétur ennfremur.

Þessi hluti hússins var mannlaus þegar eldurinn kom upp en það var vegfarandi sem tilkynnti Neyðarlínunni um eldinn. Í öðru rými í húsinu var fólk en það hafði ekki orðið eldsins vart og engum varð meint af.

UPPFÆRT KL. 00:10: Slökkvistarfi er að ljúka og reykræsting stendur yfir.

Allt tiltækt lið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi og Hveragerði var kallað á vettvang. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHamar sópaði Fjölni
Næsta greinSextíu ára hefð fyrir tónleikum á sumardaginn fyrsta