Geo Salmo hélt íbúafund í ráðhúsi Ölfus í Þorlákshöfn í síðustu viku og kynnti þar áform sín um uppbyggingu fiskeldis á landi vestan við Þorlákshöfn.
Tilgangur fundarins var að kynna helstu efnisatriði úr umhverfismatsskýrslu sem fyrirtækið hefur lagt fram auk þess að kynna fyrirtækið og áætlanir þess á næstu árum.
Jens Þórðarson framkvæmdastjóri Geo Salmo hélt kynningu fyrir hönd fyrirtækisins og var fundurinn vel sóttur og góðar umræður sköpuðust.
„Við leggjum áherslu á að eiga í góðu samtali við íbúa og hagsmunaaðila á staðnum og erum þakklát fyrir góðar móttökur og velvild sem okkur hefur verið sýnd. Við vorum virkilega ánægð með íbúafundinn. Íbúar eru áhugasamir um áform fyrirtækisins og sveitarfélagið Ölfus hefur einnig sýnt áætlunum okkar mikinn áhuga,“ segir Jens.
Geo Salmo hefur nú lagt fram umhverfismatsskýrslu um allt að 24.000 tonna fiskeldi á landi og verður framkvæmdinni skipt í tvo áfanga. Allir geta kynnt sér umhverfismatsskýrsluna og veitt umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar en umsagnir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 24. janúar næstkomandi.