Vörur í sátt við móður náttúru

Sólbjört Jóhannesdóttir og Þuríður Elva Eggertsdóttir hjá Bambaló. Ljósmynd/Aðsend

Verslun Bambaló sérhæfir sig í vönduðum vörum fyrir ungabörn en á bak við vörumerkið standa tvær ungar metnaðarfullar og hugmyndaríkar konur, þær Þuríður Elva Eggertsdóttir og Sólbjört Jóhannesdóttir.

„Hugmyndin að Bambaló kviknaði fyrst fyrir um það bil fimm árum hjá mér í Kaupmannahöfn en ég fór aldrei neitt með hugmyndina, ekkert meira heldur en nokkrar skissur heima við. Ég hafði seinna samband við Sólbjörtu og ræddi þessa hugmynd við hana, henni leist vel á og þá þróaðist hún, kom saman og varð að því sem hún er í dag,“ segir Þuríður, í samtali við sunnlenska.is.

Sængurver upphafið að öllu
Sólbjört segir að þær stöllur hafi drukkið kaffibolla og átt góðar samræður á Selfossi. „Þuríður var þá ólétt og við ræddum um framtíðarplön og óskastarf, ásamt hönnunartengdum hugmyndum sem hefðu aldrei fengið að verða neitt meira en hugmyndir. Nokkrum dögum síðar hringdi Þuríður í mig með hugmynd af sængurveri fyrir börn sem hún hafði hugsað um í nokkurn tíma. Við hittumst og ræddum þetta og úr varð hörsængurver með ísaumuðum upphafsstaf.“

Þuríður og Sólbjört hafa verið að hanna og skapa síðan 2020 en eru aðeins nýlega farnar að gefa kost á því að kaupa vörurnar sem sem þær búa til fyrir almenning. „Fyrsti fundur var árið 2020, varan kom til landsins haustið 2021 og fór í sölu rétt fyrir jól 2021, Bambaló er glænýtt á markaði þó svo að vinnan hafi tekið næstum tvö ár eða frá 2020,“ segir Sólbjört.

Mynd/Bambaló

Mikill áhugi á vörunum
„Viðtökurnar hafa verið yndislegar, sem gerir þetta enn skemmtilegra og gerir okkur enn spenntari fyrir því að koma með nýjar vörur á markaðinn,“ segir Þuríður og Sólbjört bætir við að þær verði varar við mikinn áhuga á vörunum. „Fólk er spennt fyrir efninu hör, enda er það mikið í tísku um þessar mundir og umhverfisvænni kostur en bómull, sem hefur verið ríkjandi hér á landi. Síðan skemmir ekki fyrir hvað hann er yndislega mjúkur og slitsterkur. Það er gaman að geta boðið upp á svona hágæða kost, sem að okkur fannst vanta á markaðin,“ segir Sólbjört.

„Eins og staðan er núna þá erum við að hanna og selja fyrir þessi allra minnstu, 0-12 mánaða. En við erum þó með vörur sem passa í unglingaherbergið eða jafnvel stofuna. Við erum alltaf að bæta við okkur, og förum við á næstunni að setja vörur í framleiðslu fyrir eldri börn.“

Mynd/Bambaló

Sístækkandi vöruúrval
„Við erum sífellt að auka við vöruúrvalið og erum rétt í þessu að bíða eftir vöru sem við vorum að klára að fínisera og erum mjög spenntar að fá í hendurnar og deila með öllum. Við reynum að vera skynsamar og byrjuðum þess vegna aðeins með stafa sængurverið okkar og höfum hægt og bítandi verið að bæta við. Við eigum helling af hönnun inni sem við bíðum spenntar eftir að fá færi á að framleiða og deila með okkar kúnnum. Framtíðar markmiðið er að geta verið í fullu starfi við að hanna vörur, okkur þykir ekkert skemmtilegra,“ segir Þuríður.

„Við vinnum allar okkar vörur í sátt við móður náttúru, og notumst aðallega við hör í okkar hönnun, sem er sjálfbærasta náttúrulega efnið sem finnst um þessar mundir. Stafa sængurverið okkar, fyrsta og vinsælasta varan okkar, prýðir fallegan krans sem er vatnslitamálverk eftir okkur og er þrykkt á sængurverið. Síðan saumum við út upphafsstaf barns eftir pöntunum, sem gerir það að verkum að hvert ver er einstakt og persónulegt á sinn hátt,“ segir Þuríður.

„Við bjóðum upp á persónulega þjónustu, pökkum öllum pöntunum á okkar hönnun fallega inn þannig að varan er tilbúin fyrir þig að gefa eða njóta þess að opna sjálf/ur. Við erum á Facebook, Instagram og síðan auðvitað heimasíðan okkar www.bambalo.is. Ef fólk vill skoða vörurnar betur áður en það verslar á netinu er hægt að skoða þær í Hringur verzlun í Hveragerði,“ segir Þuríður að lokum.

Fyrri greinÓliver genginn til liðs við Selfoss
Næsta greinAtli Þór afgreiddi KFR – Uppsveitir og Árborg í góðum málum