Sáðmenn sandanna hjá Landgræðslunni nýttu hlýindakafla á þorra til að sá lúpínufræi í melgresissáningar á Landeyjasandi.
Sáningin er hluti af verktöku stofnunarinnar hjá Siglingastofnun til að draga úr hættu á sandfoki á ökutæki sem eru á leið til eða frá Landeyjahöfn.
Á vef Landgræðslunnar kemur fram að reynsla Landgræðslunnar af heftingu sandfoks á Mýrdalssandi og aldargömul reynsla af nýtingu melgresis til að hefta sandfok sýni að það er eina tegundin sem kemur til greina í byrjun á erfiðum sandsvæðum líkt og á Landeyjasandi.
Sáning á þessum árstíma hentar vel ef jörð er ófrosin, fræið spírar að vori og nýtir rakann í sandinum áður en hefðbundnir þurrkar á þessum slóðum hefjast í júní.
Til verksins var notuð sáðvél sem þúsundþjalasmiðurinn Hjalti Oddson frá Heiði á Rangárvöllum hannaði og smíðaði til að sá lúpínufræi við erfiðar aðstæður.