VSB og Yrki frumhanna frístundamiðstöð á Selfossi

Mynd/Árborg

Sveitarfélagið Árborg hefur samþykkt tilboð VSB Verkfræðistofu og Yrki arkitekta í frumhönnun á nýrri frístundamiðstöð við íþróttavöllinn á Selfossi.

Tvö tilboð bárust í verkið; VSB Verkfræðistofa og Yrki arkitektar buðu rúmlega 52,8 milljónir króna og VSÓ Ráðgjöf rúmlega 65,9 milljónir króna. Tilboðin voru tekin fyrir á síðasta fundi frístunda- og menningarnefndar.

Um er að ræða tilboð í þrjá verkþætti og var tilboð VSB Verkfræðistofa og Yrki arkitektar í fyrsta verkþáttinn rúmlega 13,9 milljónir króna. Í fjárheimildum sveitarfélagsins hafði verið gert ráð fyrir 28 milljónum króna í þennan verkþátt.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar þarf eftir lok 1. áfanga að taka ákvörðun um hvort haldið verði áfram í næstu áfanga. Verði verkefnið ekki endanlega samþykkt af bæjarstjórn er fyrirvari í útboðinu um heimild til að falla frá ráðgjafaáföngum 2 og 3 og segja upp samningnum bótalaust.

Verði samþykkt að fara í 2. og 3. áfanga er tilboð VSB og Yrki, fyrir utan möguleg viðbótarverk, 3% yfir kostnaðaráætlun, eða rúmlega 48 milljónir króna en áætlaður kostnaður er tæplega 46,8 milljónir króna.

Grunnhugmyndin að frístundamiðstöðinni á Selfossi er að búa til aðstöðu og umhverfi til að bæta frístundaþjónustu við íbúa og bjóða upp á enn fjölbreyttari möguleika en standa nú til boða. Þar væri hægt að sameina margar stofnanir sem sinna frístundastarfi á einum stað sem eykur m.a. hagræðingu í rekstri, faglega samvinnu og framboð á þjónustu.

Fyrri greinGestirnir sterkari í seinni hálfleik
Næsta greinTorfæran á Hellu í beinni á netinu