Alls söfnuðust 1049 undirskriftir þeirra sem skora á bæjaryfirvöld í Árborg að hætta við að rýma Sandvíkurskóla og flytja nemendur yfir á Sólvelli og í gamla safnahúsið eins og ráðgert er fyrir næsta skólaár.
930 þeirra sem skrifuðu undir teljast vera úr Sandvíkur- og Sólvallaskólahverfinu og að sögn aðstandenda söfnunarinnar er það um þriðjungur kjósenda á umræddu svæði. Eyþór Arnalds formaður bæjarráðs Árborgar veitti listunum móttöku á þriðjudag.
Telja aðstandendur söfnunarinnar að lítill sparnaður fáist með flutningi nemenda úr Sandvíkurskólanum og með flutningnum sé verið að falla frá menningararfleið hússins, auk þess sem gera verði ráð fyrir því að þörf verði fyrir auknu plássi fyrir nemendur innan fárra ára og því óráðlegt að taka húsnæðið úr notkun.
Forsvarsmenn skólans hafa hinsvegar bent á að nemendum Vallaskóla hafi fækkað mikið vegna tilkomu Sunnulækjarskóla. Færsla yfir á einn stað hafi hagræðingaráhrif og stytti leið nemenda í íþróttahús. Jafnframt liggi ýmis viðhaldsverkefni fyrir í Sandvík með óskilgreindum kostnaði.