Yfir 150 hjálparbeiðnir bárust – Tré rifnuðu upp með rótum á Selfossi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Klukkan 3:15 í nótt hafði viðbragðsaðilum á Suðurlandi borist yfir 150 beiðnir um ýmiskonar aðstoð.

Á Selfossi brotnuðu tré, eða rifnuðu upp með rótum, hjólhýsi fauk á hliðina og lenti utan í húsum, þakplötur og þakkantar losnuðu eða fuku af tólf húsum. Tvær beiðnir bárust vegna gróðurhúsa sem voru að fjúka.

Í þremur tilvikum þurfti að aðstoða ferðamenn sem höfðu lent í því að drepist hafði á bílum þeirra og var fólkið orðið mjög kalt og hrakið. Í uppsveitum Árnessýslu var svo blint að ekki sást fram fyrir vélarhlífar á bílum.

Tólf gistu í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Borg í Grímsnesi.

Undir Ingólfsfjalli fóru vindhviður upp í 50 m/sek og áttu ökumenn sem áttu leið um Suðurlandsveg á þeim kafla í nokkrum vandræðum. Tveir bílar fuku út af veginum en engin slys urðu á fólki. Vindhviðurnar voru svo hressilegar að báðar rúðuþurrkur á bíl sem átti þar leið um fuku af.

Vegir opna undir hádegi
Búast má við að Hellisheiði, Þrengsli, Lyngdalsheiði, Þingvallavegur og Biskupstungnabraut opni ekki fyrr en líða tekur að hádegi. 

Í Rangárvallasýslu og undir Eyjafjöllum voru nokkrir ferðamenn aðstoðaðir við að komast til byggða.

160 manns við björgunarstörf í óveðrinu
Á fjórða tímanum í nótt voru flestir viðbragðsaðilar komnir í hús en alls tóku um 160 einstaklingar á rúmlega 40 björgunartækjum tekið þátt í þessari aðgerð, björgunarsveitir, sjúkraflutningar og slökkvilið, ásamt lögreglu. Lögreglan á Suðurlandi þakkar öllum þeim viðbragðsaðilum kærlega fyrir þeirra ómetanlegu aðstoð. Aðgerðastjórn verður virkjuð aftur ef verkefni krefjast þess.

Rafmagn kom aftur á í Sandvíkurhreppi á fimmta tímanum í nótt og er ekki búist við frekari rafmagnstruflunum þar.

Skólahald fellur niður í dag í grunn- og leikskólum Bláskógabyggðar í Reykholti og á Laugarvatni.

Skólaakstur við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri fellur niður í dag vegna veðurs. Skólinn opnar kl. 7:30 en reynt verður að halda uppi kennslu samkvæmt stundaskrá. Mælst er til þess að foreldrar/forráðamenn meti hvort þeir geti ekið börnum sínum til og frá skóla út frá aðstæðum. Ef forráðamenn senda nemendur ekki í skólann skal það tilkynnt símleiðis eða í tölvupósti á póstfangið barnaskolinn@barnaskolinn.is.

Fyrri greinSkólahald fellur víða niður
Næsta greinSelfyssingar hvattir til að spara heita vatnið