Í síðustu viku var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr ellefu sumarbústöðum í Grafningi, Þingvallasveit og í Grímsnesi.
Í flestum tilvikum voru það flatskjáir og ýmiss konar rafmagnstæki sem þjófarnir höfðu á brott.
Vikuna á undan var tilkynnt um tólf innbrot í bústaði í Árnessýslu þannig að á tveimur vikum hefur verið brotist inn í 23 bústaði.
Ýmis smáþjófnaðarmál komu upp hjá lögreglunni á Selfossi í vikunni þar sem þjófar nýta sér kæruleysi fólks sem skilur við sig verðmæti á glámbekk. Farið var inn í þrjá ólæsta bíla á Selfossi, peningaveski stolið í sundlauginni á Selfossi og tveimur símum úr buxnavösum í sundlauginni á Laugarvatni.