Yfir 3.800 kærðir fyrir hraðakstur það sem af er ári

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði þrettán ökumenn fyrir hraðakstur í umdæmi sínu í liðinni viku.

Af þeim voru tólf í Skaftafellssýslunum og sá sem hraðast ók mældist á 134 km/klst hraða. Tíu þessir ökumanna eru erlendir ferðamenn en hinir íslenskir. Rúmlega 3.800 manns hafa nú verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu á yfirstandandi ári.

Einn var kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti. Hann reyndist vera að aka bifreið sinni sviptur ökurétti vegna eldra brots.

Skráningarnúmer fjögurra bifreiða voru fjarlægð þar sem þær reyndust ótryggðar í umferðinni.

Þá kemur fram í dagbók lögreglunnar að þrettán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar. Í tveimur þeirra urðu meiðsli á fólki. Vörubíll ók aftan á bíl á vesturleið í Hveradalabrekku síðastliðinn miðvikudag. Fremri bíllinn hafði hægt á sér vegna umferðaróhapps á veginum og kastaðist hann við höggið á kyrrstæða bifreið. Snjóþekja og hálka var á vettvangi.

 

Fyrri greinBarn varð undir bíldekki
Næsta greinÓvissustigi lýst yfir vegna óveðursins