Yfir 50 manns komu að björgunaraðgerðum í Kerlingarfjöllum

Hinum slasaða komið um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landsbjörg

Yfir fimmtíu manns komu að aðgerðum í Kerlingarfjöllum í dag þegar bjarga þurfti ferðamanni sem brennst hafði á fæti.

Útkallið barst eftir hádegi en aðgerðum lauk ekki fyrr en á tíunda tímanum í kvöld þegar björgunarfólk kom til byggða.

Björgunarsveitir frá Selfossi að Hellu og úr uppsveitum Árnessýslu voru kallaðar út ásamt sjúkraflutningamönnum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Nokkurn tíma tók að staðsetja manninn en björgunarsveitirnar fengu ranga staðsetningu í upphafi og þyrlan átti erfitt með að athafna sig vegna þoku.

Þyrlan lenti því við Ásgarð í Kerlingarfjöllum og hinn slasaði var borinn góðan spöl að bílum sem komu að Kerlingu vestanverðri. Þaðan var maðurinn fluttur í bíl að þyrlunni sem flaug með hann á slysadeild í Reykjavík.

Fyrri greinBílaröðin teygði sig til Víkur
Næsta greinFerðalangar í vandræðum í Hólmsá