Hafnarnes VER hf. í Þorlákshöfn sagði upp rúmlega tuttugu starfsmönnum í fiskvinnslu fyrirtækisins í dag og taka uppsagnirnar gildi þann 1. desember næstkomandi.
„Fyrirtækið er einn af stærstu vinnuveitendum í Þorlákshöfn og er þetta reiðarslag fyrir okkur sem berum hag starfsfólks okkar sem og bæjarins fyrir brjósti. Bæjaryfirvöld hafa verið upplýst um gang mála enda hafa þau staðið þétt við bakið á okkur í þeirri baráttu sem við höfum átt gagnvart stjórnvöldum,“ segir Ólafur Hannesson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í fréttatilkynningu.
„Aðdragandi þessarar ákvörðunar hefur verið nokkur, en við höfum róið öllum árum að því að koma í veg fyrir að þurfa að grípa til þessara aðgerða. Nýjar reglur um veiði á sæbjúgum hafa valdið þessu ástandi. Síðastliðið ár höfum við reynt eftir fremsta megni að glíma við sjávarútvegsráðuneytið og Hafrannsóknarstofnun Íslands, en við ofurefli hefur verið að etja. Uppsagnir dagsins í dag má rekja beint til vafasamrar og óvísindalegrar ráðgjafar Hafró við fiskveiðiráðgjöf á sæbjúgum og skeytingarleysis sjávarútvegsráðuneytisins gagnvart hagsmunum vinnandi fólks á landsbyggðinni og hag smærri bæjarfélaga. Ítrekað var bent á að þetta yrði óhjákæmileg afleiðing ákvörðunartöku þeirra en þessir aðilar hafa kosið að skella skollaeyrum við þeim aðvörunum,“ bætir Ólafur við.
Ráðherra trúir Hafró eins og nýju neti
Fyrr á árinu gaf Hafró út nýja fiskveiðiráðgjöf, þar sem lagt var til tæplega 60% samdrátt á sæbjúgnaveiðum frá fyrra fiskveiðiári. Ólafur segir ljóst að enginn framleiðslustarfsemi getur staðið slíkan hráefnissamdrátt af sér án afleiðinga.
„Þvert á gagnstæð sjónarmið hefur Kristján Þór Júlíusson kosið að trúa ráðgjöf Hafró eins og nýju neti – eitthvað sem allir góðir skipstjórar gjalda varhug við, jafnvel þeir sem komnir eru á bakvið skrifborð. Sjávarútvegsráðherra hefur kosið að fela sig á bakvið ráðleggingar Hafró og þorir ekki að standa með þeim fyrirtækjum og því starfsfólki sem reiðir sig á veiðar sæbjúgna í stað þess að stíga í lappirnar gagnvart Hafró sem hefur viðurkennt að lítil þekkinga sé á tegundinni þar innanborðs og þörf sé á frekari rannsóknum, þekkingarleysið hefur þó ekki stuðlað að auðmýkt í vinnubrögðum þeirra sem hafa bein áhrif til hins verra á lífsviðurværi fjölda fólks á landinu,“ segir Ólafur ennfremur.
Stjórnvöld stuðla að verstöðvabyggð
Ólafur segir ákvörðunina mjög þungbæra en vonast til að hægt verði að finna leiðir til að snúa þessu við og halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið í sæbjúgnaiðnaðnum.
„Það er ekki sjálfgefið að tegund eins og sæbjúgu séu unnin hér við land og markaðir ekki öruggir, það er því þyngra en tárum taki að það skuli vera íslensk stjórnvöld með sjávarútvegsráðherra í fararbroddi sem koma mesta högginu á okkur. Afla- og markaðsbrest getur maður skilið en óhæfa stjórnsýslu er erfitt að átta sig á. Haldi menn áfram á þessari braut þá munu stjórnvöld stuðla að verstöðvabyggð í landinu í stað blómlegra og fjölskylduvænna bæjarfélaga víðsvegar um landið,“ segir Ólafur að lokum.