Yngvi Karl nýr skólastjóri Laugalandsskóla

Yngvi Karl Jónsson hefur verið ráðinn skólastjóri Laugalandsskóla í Holtum.

Yngvi Karl er 58 ára og er starfandi náms- og starfsráðgjafi hjá Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.

Hann er með BA í sálfræði og MA í ráðgjöf frá UNC-háskólanum í Charlotte í Norður-Karólínu auk meistaragráðu í kennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri. Yngvi Karl hefur sinnt kennslu í grunnskólunum í Hveragerði, Eyrarbakka og Stokkseyri og Hvolsvelli. Hann veitti forstöðu meðferðarheimili Barnaheilla á Geldingalæk um árabil og var árið 2010 ráðinn af Barnaverndarstofu til að setja á stofn meðferðarheimilið Lækjarbakka og var þar forstöðumaður til ársins 2020. Hann hefur einnig starfað sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og stýrt félagsmiðstöðvum auk þess að sinna íþróttaþjálfun meðfram öðrum störfum og verið virkur í sveitarstjórnarmálum.

Umsækjendur voru 6 talsins og voru þeir allir boðaðir í viðtal vegna starfsins.

Fyrri greinBóndi brotnaði á handlegg
Næsta greinÞórður í Skógum 100 ára í dag