Félagsmiðstöðin Zelsíuz á Selfossi og frístundamiðstöðin Bungubrekka í Hveragerði eru á meðal þeirra stofnana sem tilnefndar eru til Íslensku menntaverðlaunanna 2023.
Félagsmiðstöðin Zelsíuz fær tilnefningu í flokki framúrskarandi þróunarverkefna fyrir samstarf sitt við velferðarþjónustu Árborgar, sem hófst árið 2016. Verkefnið byggir á snemmtækri íhlutun sem miðar að því að börn, sem þurfa félagslegan stuðning, fái aðstoð sem fyrst til að koma í veg fyrir að vandi þeirra aukist.
Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun barna og unglinga, styrkja þá og gera að virkum þátttakendum í starfi félagsmiðstöðvarinnar með persónulegri ráðgjöf og liðveislu. Frá því að verkefnið hófst árið 2016 hafa ríflega 70% barna eða unglinga sem sótt hafa úrræðið skilað sér inn í frekara starf félagsmiðstöðvarinnar.
Bungubrekka leiðandi á landsvísu
Frístundamiðstöðin Bungubrekka í Hveragerði er tilnefnd í flokknum framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, fyrir fagmennsku í frístundastarfi, metnaðarfulla innleiðingu á gæðaviðmiðum og miðlun á starfi sínu innan sem utan Hveragerðis.
Sérstaða Bungubrekku er áhersla frístundamiðstöðvarinnar á innra mat og starfshætti en Bungubrekka hefur verið leiðandi á landsvísu í eflingu gæðastarfs og fagmennsku og miðlað til frístundavettvangsins af örlæti sínum starfsháttum. Frístundamiðstöðin býður börnum og ungmennum upp á afar vandaða dagskrá sem skipulögð er í lýðræðislegu ferli, þar sem tillit er tekið til fjölbreytileika og áhugasviðs ólíkra hópa barna og ungmenna.
Hér má sjá tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2023