Dregið hefur verið í fyrstu umferðum Borgunarbikars karla og kvenna í knattspyrnu. Borgunarbikarinn í ár hefst 4. maí en 1. umferðin hjá körlunum verður leikin 4. og 5. maí.
Ægir fær heimaleik gegn Kára í 1. umferðinni og sigurliðið fær 1. deildarlið Grindavíkur í heimsókn í 2. umferðinni. Það væri draumaleikur fyrir Ægismenn því þjálfari liðsins, Alfreð Elías Jóhannsson, er Grindvíkingur og ljóst að stuðningsmenn Grindavíkur myndu renna austur Suðurstrandarveginn og kíkja á leikinn.
KFR fær Létti í heimsókn og sigurliðið mætir Afríku eða Ými á útivelli í 2. umferðinni.
Hamar heimsækir 4. deildarlið Ísbjarnarins og sigurliðið úr þeim leik mætir annað hvort Berserkjum eða KFS í 2. umferðinni.
Árborg sækir Hvíta riddarann heim en sigurliðið mætir annað hvort Snæfelli eða Ármanni í 2. umferðinni.
Stokkseyri mætir utandeildarliðinu Hómer á útivelli og sigurliðið heimsækir annað hvort Þrótt Vogum eða Víði Garði.
Utandeildarlið Gnúpverja fær 4. deildarlið Elliða í heimsókn og sigurliðið úr þeim leik mætir annað hvort ÍH eða Álftanesi í 2. umferðinni.
Selfyssingar hefja leik í 2. umferðinni og drógust þeir á móti ÍR á útivelli.
Sigurliðin í 2. umferð fara í 32-liða úrslitin þar sem liðin í Pepsi-deildinni mæta til leiks. Selfosskonur hefja leik í 16-liða úrslitum.