Þjálfarar liðanna í 3. deild karla í knattspyrnu spá Ægismönnum 5. sæti í deildinni í sumar. Ægir varð í 11. sæti í 2. deildinni í fyrrasumar og féll niður í 3. deild.
„Þessi spá kemur mér ekkert sérstaklega á óvart þar sem við höfum ekki verið sannfærandi í þessum undirbúningsmótum nú í vor. Hópurinn hjá okkur hefur verið þunnur oft á tíðum og því þetta ekkert óeðlileg spá. Það er töluverð breyting á liðinu frá því í fyrra og nýr þjálfari þannig að það tekur tíma að stilla saman strengi. Markmið okkar er að safna eins mörgum stigum og við getum og svo þarf bara að telja saman stigin þegar mótinu er lokið og sjá hvar við stöndum,“ segir Björgvin Vilhjálmsson, þjálfari Ægis.
Keppni í 3. deildinni hefst á föstudagskvöld en þá sækir Ægir KFG heim í Garðabæinn kl. 21:00.